Töluvert var fjallað um endurskipulagningu Actavis Group á síðasta ári en henni lauk fyrir áramót eftir að samningar náðust við hinn þýska Deutsche Bank, sem var stærsti kröfuhafi félagsins, auk þess sem endurskipulagningin þurfti jafnframt á samþykki Evrópusambandsins að halda vegna formsatriða sem tengjast meðal annars samkeppnislögum.

Aðspurður um stöðu félagsins eftir endurskipulagningu segir Claudio Albrecht, forstjóri og stjórnarformaður Actavis Group, að skuldarbyrði félagsins hafi verið þung og reiðufé lítið til fjárfestinga og umsvifa fyrir endurskipulagningu.

„Eftir endurskipulagninguna höfum við mun meiri sveigjanleika til að fjárfesta á ný,“ segir Claudio.

„Þegar við ákváðum að stækka verksmiðjuna hér á Íslandi var það erfið ákvörðun í ljósi aðstæðna og við þurftum að hafa töluvert fyrir því. Í dag er mun auðveldara að taka slíkar ákvarðanir. Þá hafa vaxtarmöguleikar okkar aukist nokkuð í kjölfar endurskipulagningarinnar.“

Það má segja að síðustu ár hafa einkennst af orðrómi og óvissu um framtíð Actavis, þá sérstaklega starfsemina hér á landi. Þannig hafa iðulega borist fréttir um mögulega sölu Actavis auk þess sem orðrómur um flutning úr landi hefur lifað góðu lífi þrátt fyrir fullyrðingar stjórnenda um annað.

Ekki verður hjá því komist að spyrja Claudio um fyrrnefnd atriði og segir hann að engar fyrirætlanir séu um að flytja Actavis úr landi, þvert á móti standi til að auka við starfsemina hér á landi.

„Actavis er og verður íslenskt félag,“ segir Claudio og bætir því við að hann muni sjálfur verja töluverðum tíma hér á landi.

„Stærsti hluti rannsóknar- og þróunarvinnunnar er og verður á Íslandi. Það er líflína fyrirtækisins og við vöxum ekki nema við þróum ný lyf,“ segir Claudio.

Er þá í framhaldinu hægt að fullyrða að Actavis sé ekki lengur til sölu?

„Já, alveg tvímælalaust. Actavis er ekki til sölu,“ svarar Claudio að bragði.

Sjá viðtal við Claudio Albrecht í Viðskiptablaðinu