Fjölmiðlarisinn Clear Channel Communications samþykkti í gær kauptilboð frá Thomas H. Lee Partners og Bain Capital, sem hljóðar upp á 37,6 Bandaríkjadali á hlut, en það metur fyrirtækið á 1.325 milljarða króna, segir í frétt Dow Jones.

Fyrirtækinu fylgja um 560 milljarðar króna í skuldum. Kaupverðið er 10,2% hærra en lokagengi Clear Channel á miðvikudaginn, en 16,2% hærra en í október þegar fyrirtækið tilkynnti að það íhugaði endurskipulagningu, þar á meðal sölu.

Fyrirtækið á 1.150 útvarpsstöðvar, en hefur tilkynnt að stefnt sé að sölu 448 þeirra. Hlutabréf Clear Channel náðu hámarki árið 2000, en hafa lækkað um 60% síðan þá, en minnkandi útvarpshlustun er um að kenna, þar sem gervihnattaútvarp, iPod-spilarar og aðrar afþreyingarleiðir hafa veitt aukna samkeppni.