Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Clicksale ehf. hefur gert samkomulag um sölu og innleiðingu á sölukerfi Clicksale til Flauraud, eins stærsta bílavarahlutafyrirtæki Frakklands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Sölukerfið felur í sér notkun internettengdra hnappa til að kaupa inn vörur fyrir almenn verkstæði, sprautuverkstæði sem og aðra vinnustaði. Clicksale er nýtt sprotafyrirtæki sem var stofnað haustið 2017 í kringum IoT-lausnir eða internet hluta. Clicksale hefur hannað og smíðað lausnir fyrir IoT-tæki svo auðvelt sé að innleiða þau í söluverkferla fyrirtækja.

Hugmyndin kemur frá Stillingu hf. sem prófaði IoT-lausnir fyrir viðskiptavini sína sumarið 2017. Eftir góðar viðtökur var ákveðið að stofna nýtt félag sem legði áherslu á slíkar lausnir. Í dag eru um 500 slík tæki í notkun hjá Stillingu og nokkur íslensk fyrirtæki eru að kanna möguleika á innleiðingu hjá sér. Clicksale tók þátt í stærstu varahlutasýningu heims sem haldin er í september í Frankfurt annað hvert ár. Á sýninguna mæta rúmlega 130 þúsund manns og er sýningarsvæðið 400 þúsund fermetrar í 11 sýningarhöllum.

Clicksale vakti töluverða athygli á sýningunni enda eina fyrirtækið sem sýndi slíka vöru. „Við erum ennþá að vinna úr viðskiptasamböndum sem stofnað var til á sýningunni en fljótlega eftir sýninguna fóru fyrirtæki að hringja og spyrjast fyrir um hvenær þau gætu hafist handa við innleiðingu. Við erum vongóðir um að þetta verði mjög farsælt,“ segir Bjarni Ingimar Júlíusson, framkvæmdastjóri Clicksale ehf.

Flauraud var stofnað árið 1932 og hefur frá stofnun selt varahluti í bifreiðar. Flauraud rekur yfir 20 dreifistöðvar í Frakklandi með átta stór vöruhús sem staðsett eru á lykilstöðum. Hjá Flauraud starfa yfir 200 manns og veltir fyrirtækið um 13 milljörðum króna á ári. Flauraud er í eigu PSG Motors sem er stærsti söluaðili á bílum í Evrópu með yfir 300 sölustaði víðsvegar um Evrópu.

„Samningurinn hefur gríðarlega þýðingu fyrir starfsemi Clicksale og áframhaldandi þróun. Þetta er fyrsti erlendi samstarfssamningurinn og hann sannar að hugmyndin er góð og gild.“ segir Bjarni Ingimar Júlíusson.