Clinton-fjölskyldan átti ekki túskilding með gati og sat auk þess uppi með háa reikninga frá lögfræðingum þegar forsetatíð Bill Clinton lauk í janúar árið 2001 og hún flutti út úr Hvíta húsinu. Þetta fullyrðir Hillary Clinton, fyrrverandi forsetafrú í nýrri endurminningabók. Clinton er um þessar mundir á milli þeysireið um Bandaríkin við að kynna bókina sem talin er eiga að marka fyrstu skref hennar í forsetaslaginn eftir tvö ár.

Hillary Clinton sagði í samtali við ABC News-fréttastofuna að hún og Bill hafi þurft að skrapa saman peningunum til að eiga fyrir eigin húsnæði og borga fyrir menntun dóttur þeirra, Chelsea. Það var ekki auðvelt, að hennar sögn.

AP-fréttastofan og fleiri fjölmiðlar benda á að þegar Bill Clinton fluttist úr Hvíta húsinu varð hann eftirsóttur fyrirlesari og hafði hann af því drjúgar tekjur. Þá bendir fréttastofan á að þrátt fyrir fjárhagsvandræðin hafi þau Clinton-hjón náð að tryggja sér 1,7 milljóna dala lán til að koma sér þaki yfir höfuðið. Heimilisfestið gerði það að verkum að Hillary Clinton gat farið í framboð til að ná sér í sæti í öldungadeildinni. Bent er á að eftir því sem á leið hafi hagur strympu vænkast. Árið 2009 hafi eignir þeirra Bill og Hillary Clinton numið á bilinu 10-50 milljónum dala.