Bill Clinton hefur þénað 15,4 milljón dollara frá fjárfestingafyrirtækinu Yucaipa Cos. síðan 2003. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttaveitunnar, sem vísar í skattaskýrslur sem Hillary Clinton birti sem heimild.

Í fréttinni er bent á að velta megi fyrir sér fyrir hvað Bill Clinton er að fá þessa peninga. Meðal fjárfesta Yucapia er forsætisráðherra Sameinuðu Arabísku furstadæmanna, sjeik Mohammed Bin Rashid al-Maktoum.

Skattalögfræðingar segja greiðslur til Clinton frá Yucaipa líta út fyrir að vera launagreiðslur, þar sem þær standa á heilum hundruðum eða þúsundum fyrir flest árin.

Tengsl Clinton við Yucaipa hafa verið umdeild undanfarið ár segir í frétt Bloomberg.  „Flestir sem græða þetta mikla peninga vinna fyrir þeim“ hefur Bloomberg eftir Michael Gretz, skattalagaprófessor Yale háskólans. „Hvað er hann að fá borgað fyrir, og ef það er sjeikinn af Dubai sem er að borga eiginmanni einhvers sem gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna, hvað halda menn að þeir séu að borga fyrir?“

Tekjur Clinton-hjónanna voru um 109 milljón dollarar frá árinu 2000 til 2007 fyrir skatta. Þar af fengu þau 51,9 milljónir í tekjur af ræðuhöldum Bill Clinton og 29,6 milljónir fyrir útgáfuréttindi og sjálfsævisögu Bill Clinton. Hillary græddi 10,5 milljónir dollara á útgáfuréttindum.