Ted Cruz, öldungadeildaþingmaður frá Texax sigraði í fyrstu forkosningum Repúblikana sem haldin var í Iowa í nótt. Cruz fékk 28% atkvæða en helsti andstæðingur hans, Donald Trump fékk 24% atkvæða. Marco Rubio var í þriðja sæti og fékk 23% atkvæða.

Cruz sagði í sigurræðu sinni að að kjósendur í Iowa hefðu talað og að þetta sýndi að næsti forseti Bandaríkjanna myndi ekki vera kosinn af fjölmiðlum.

Mjótt er milli frambjóðenda Demókrataflokksins, Hillary Clinton og Bernie Sanders. Þegar búið að er að telja 97% atkvæða þá er Clinton með 49,8% og Sanders með 49,6% atkvæða.

Næstu forkosningar eru í New Hampshire þann 9. febrúar nk. Donald Trump mælist þar með 33% fylgi og er með 22% forskot á Ted Cruz, sem er með 11%. Marco Rubio er með um 10% fylgi.

Bernie Sanders er með forskot á Hillary Clinton í New Hampshire, en hann mælist með 55,5% fylgi á móti hennar 37,5% fylgi.