Bandarískir kjósendur eru jákvæðari í garð Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetafrú, en í garð bæði Baracks Obama Bandaríkjaforseta og Joe Biden varaforseta. Er þetta meðal niðurstaðna nýrrar könnunar sem Gallup gerði vestra.

Um 64% aðspurðra sögðust hafa jákvæða skoðun á Clinton, en 31% höfðu neikvæða skoðun á henni. Um 55% eru jákvæðir í garð Obama, en 43% neikvæðir og þá sögðust 45% vera jákvæðir í garð Biden, en 42% neikvæðir. Einnig var spurt um eftirmann Clinton í ráðherraembætti, John Kerry, og sögðust 44% jákvæðir í hans garð, en 35% neikvæðir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Clinton mælist vinsælli en Obama, því niðurstaðan hefur verið sú í öllum slíkum könnunum sem Gallup hefur gert frá árinu 2010. Vinsældir Obama eru nú svipaðar og þær voru árin 2011 og 2012, en töluvert frá hápunkti vinsælda hans árið 2009, þegar 64% sögðust jákvæð í hans garð.