Breski bankinn Close Brothers hækkaði um 33 pens í 674 pens eftir að Landsbankinn [ LAIS ] hóf greiningu á bankanum með því að mæla með kaupum í honum, að því er fram kemur í The Guardian . Landsbankinn, í samstarfi við Cencos, reyndi þar til fyrr á þessu ári að yfirtaka bankahluta Close Brothers, en fyrir rúmum mánuði tilkynnti Close Brothers að hætt hefði verið við allar hugmyndir um sölu.

„Eftir slaka þróun hlutabréfaverðs á síðustu fimm árum hefur Close nýlega slegið á allar vonir um yfirtökutilboð,“ hefur The Guardian eftir Ian Poulter greinanda Landsbankans. Blaðið hefur ennfremur eftir honum að áform um að nýta eigið féð betur ætti að skila ávinningi. „Við teljum að svigrúm sé bæði fyrir hraðari vöxt og arðsemi eigin fjár - þrátt fyrir að samsteypan hafi þegar farið út í yfirtökur,“ er haft eftir greinandanum.

Close Brothers tilkynnti skömmu fyrir mánaðamót að bankasamsteypan hefði yfirtekið tvö sérhæfð lánafyrirtæki með samanlagða lánabók upp á 145 milljónir punda.