Kínverska olíufyrirtækið CNOOC dró í gær til baka 18,5 milljarða Bandaríkjadala, (1,180,85 milljarða króna) tilboð sitt í bandaríska orkufyrirtækið Unocal. Úr varð að olíufélagið Chevron, sem meðal annars á Texaco, keypti fyrirtækið fyrir um að bil 17,3 milljarða dollara ( 1,104,26 milljarða króna) í peningum og hlutabréfum.

Niðurstaðan vekur upp spurningar um möguleika kínverskra fyrirtækja til að eignast fyrirtæki á erlendri grundu sé tekið tillit til mögulegrar mótstöðu stjórnvalda og mikillar samkeppni frá erlendum keppinautum.

CNOOC sem er í eigu kínverska ríkisins kenndi pólitísku bakslagi í Bandaríkjunum um það hvernig fór. Tilboð CNOOC fékk ekki náð fyrir augum stjórnar Unocal þar sem það var talið áhættusamara en lægra tilboð Chevron. Fyrirhuguð kaup CNOOC urðu fyrir mikilli mótstöðu í Bandaríkjunum, meðal annars hjá stjórnvöldum í Washington.