Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun var heildarlosun á koltvísýringi (CO2) frá hagkerfinu ríflega 140% meiri á árinu 2017 en þegar mælingar hófust árið 1995 (mælt í kílótonnum CO2). Að árunum 2006-2007 undanskildum, þegar losunin jókst um 15% milli ára, hefur losun CO2 í hagkerfinu aldrei aukist jafn mikið og hratt eins og á síðasta hagvaxtarskeiði.

Heildarlosunin koltvísýrings (kílótonn CO2) frá hagkerfinu jókst um ríflega helming (51%) á góðæristímabilinu 2012 til 2017.

Ástæðan fyrir þessari miklu aukningu er vöxtur ferðaþjónustunnar og flutningar ferðamanna hingað til lands.

Á sama fimm ára tímabili 2012-17 fór losun koltvísýrings úr 854 kílótonnum upp í 2.622 kílótonn af CO2 sem jafngildir liðlega 200% aukningu og þreföldun á fimm ára tímabili.

Losun koltvísýrings nær þrefaldaðist líka í ferðaþjónustu og akstri ferðamanna á sama tímabili, úr 33 tonnum árið 2012 í 92 tonn 2017 sem er þó undir 4% af heildarlosuninni í flugflutningum.  Árið 2017 mátti rekja 40% af heildarlosun hagkerfisins til flutninga í flugi eða 2.622 tonn af 6.611 tonnum.

Þess bera að geta að þessar tölur taka ekki til flugferða erlendra flugfélaga hingað til lands. Sömuleiðis taka þær ekki heldur til losunar skemmtiferðaskipa sem fjölgaði gríðarlega á umræddu tímabil, eins og flugferðum erlendra flugfélaga. Mun meiri losun koltvísýrings er því á bak við fjölgun ferðamanna hér á landi síðustu ár en tölur um losun í íslenska hagkerfinu gefa í skyn.

Mikið hægði á aukningunni í fyrra, en áætluð losun fyrir 2018 er 5% hærri frá þessum geira en 2017. Áætlun fyrir 2019 mun liggja fyrir snemma árs 2020 en reikna má með að gjaldþrot Wow hafi þau áhrif að losunin í hagkerfinu dragist þá saman milli ára.