Vitað var um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Vífilfelli þegar samkomulag var gert við Þorstein M. Jónsson og félög sem tengjast honum um uppgjör skulda. 260 milljóna króna stjórnvaldssekt Samkeppniseftirlitsins vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu hefur því ekki áhrif á samninginn. Gert var ráð fyrir niðurstöðunni, samkvæmt upplýsingum frá Arion banka.

Spænska félaginu Cobega var einnig kunnugt um rannsóknina, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ekki er loku fyrir það skotið að sektin hafi áhrif á lokavirði kaupanna. Unnið hefur verið að kaupunum á síðustu vikum og gert er ráð fyrir að þeim ljúki á næstu vikum, samkvæmt heimildum blaðsins. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Vífilfell hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að skuldbinda viðskiptavini sína til þess að kaupa gosdrykki einungis af félaginu.

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, sagði að lögfræðingar fari nú yfir úrskurð eftirlitsins. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.