Coca-Cola hyggjast verja 5 milljörðum bandaríkjadala í að auka markaðshlutdeild sína í Indlandi. Fjárfestingunni verður dreift yfir átta ár og er heilum 3 milljörðum meiri en fyrirtækið hafði áður gert ráð fyrir.

Sala Coca-Cola í Indlandi hefur haldist stöðug en indverskur neytendamarkaður er hratt vaxandi. Þegar kemur að helstu söluvörunni, Coke gosdrykknum, hefur Pepsi þó enn vinninginn í Indlandi ef marka má sérfræðinga sem fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC ræddi við.

Markaðshlutdeild Coke er metin um 9% en Pepsi um 15%. Þegar litið er á fyrirtækin í heild hefur Coca-Cola hins vegar forskot með 58% markaðshlutadeild samanborið við 38% hlutdeild Pepsico.