Bandaríski drykkjavöruframleiðandinn Coca-Cola hyggst, á næstu fimm árum, fjárfesta fyrir tvo milljarða Bandaríkjadali á Indlandi til að auka markaðshlutdeild sína í landinu.

Frá þessu er greint á vef BBC en fjárfestingar Coca-Cola munu fyrst og fremst fela í sér stækkun á framleiðslu auk þess að efla dreifingarmiðstöð sína á Indlandi til að mæta aukinni eftirspurn.

Coca-Cola er stærsti gosdrykkjaframleiðandi heims en í nýrri markaðsspá fyrirtækisins er gert ráð fyrir að Indland verði meðal fimm stærstu markaða fyrirtækisins árið 2020.

Það er því augljóst að Coca-Cola ætlar heldur betur að gefa í á Indlandi. Sú upphæð sem fyrirtækið hyggst fjárfesta fyrir í framleiðslu og dreifingu á næstu fimm árum er svipuð því sem fjárfest hefur verið í landinu sl. 18 ár.

Indverskur neytendamarkaður er einn sá markaða sem hvað hraðast vex um þessar mundir. Hagnaður Coca-Cola hefur að sögn BBC aukist í 15 af síðustu 20 ársfjórðungum.