Coca-Cola European Partners á Íslandi mun hækka verð innfluttra óáfengra vara um 5,8% frá og með næstkomandi mánudag. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var viðskiptavinum snemma í apríl.

Er ástæðan sögð mikil veiking krónunnar síðustu vikur, sem leitt hafi af sér umtalsverða hækkun kostnaðarverðs í krónum talið. Slík ákvörðun sé aldrei léttvæg, en hún sé óumflýjanleg á þessum tímapunkti.

Krónan hefur veikst um 13,7% gagnvart Bandaríkjadal frá mánaðarmótum febrúar-mars, og kostar hver dalur nú 146 krónur, og 12,6% gagnvart Evru, sem nú kostar rétt tæpar 160 krónur stykkið.