Bandaríski gosdrykkjaframleiðandinn Coca Cola áætlar nú að kaupa kínverska drykkjaframleiðandann Huiyan fyrir um 2,5 milljarða Bandaríkjadali en félagið er framleiðandi vinsælla gos- og svaladrykkja í Kína – með rúmlega 40% markaðshlutdeild.

Samkvæmt því er fram kemur á fréttavef BBC mun Coca Cola greiða um 12,2 Hong Kong dali á hlut, sem er um þrefalt á við lokagengi félagsins frá því á föstudag þegar tilboðið var formlega gefið.

Greiningaraðilar eru að sögn BBC jákvæðir gagnvart kaupunum. Þó gos- og svaladrykkjamarkaðurinn hafi átt undir högg að sækja í Kína eru flestir sammála um að aukin lífsgæði og hækkun ráðstöfunartekna í Kína muni leiða það af sér að slíkar „munaðarvörur“ verði vinsælli.