Coca-Cola hefur nú lýst því yfir að viðhafnarútgáfa gosdrykkjardósa sinna verði kynnt á árinu - nánar tiltekið þann 4. júlí, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna. Dósin sem um ræðir verður rauð, hvít og blá í litum bandaríska fánans og mun heiðra hermenn bandaríska hersins.

Dósirnar eru til þess hannaðar að vekja upp þjóðernisstolt í neytendum og hafa verið nefndar “I’m proud to be an American.” Þær verða seldar í takmörkuðu upplagi út sumarmánuðina og munu mögulega vara allt til forsetakosninganna þar í landi sem haldnar verða í nóvember.

Coca-Cola er ekki eina fyrirtækið til að spila með þjóðerniskenndir þessa dagana - en Anheuser-Busch tilkynnti um nafnabreytingu á bjórnum fræga “Budweiser” sem nú mun einfaldlega heita “America”, allt þar til forsetakosningunum fyrrnefndu lýkur í nóvember.