Framleiðandi Coca-Cola á Íslandi, fyrirtækið Coca-Cola European Partners á Íslandi, áður Vífilfell, hyggst minnka hlutfall innlendrar framleiðslu á gosdrykkjum á kostnað innflutnings. Hyggst félagið færa hlutfallið úr 94% niður í 85% með innflutningi frá systurfélagi fyrirtækisins í Svíþjóð að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eitt af því sem íslenskir neytendur ættu þó að kannast við og snýr aftur með þessari breytingu er 330 ml kók í gleri, oft kölluð stór kók í gleri, en framleiðslu hennar var hætt hér á landi fyrir nokkrum árum.

Costco og neytendur vilja stærri pakkningar

Carlos Cruz, forstjóri Coca-Cola á Íslandi segir að tilkoma Costco á markaðinn síðar í mánuðinum hafi áhrif á ákvörðunina, en þar er mest áhersla lögð á vörur í stórum pakkningum.

„Helsta ástæðan fyrir þessu er að við viljum bregðast við óskum markaðarins um að geta keypt gosdrykki úti í búð í stærri kippum, sex, tíu eða 24 dósir eða flöskur saman í pakka,“ segir Carlos, og hafi félagið því staðið frammi fyrir því að þurfa að kaupa nýja pökkunarvél.

Flytja inn í stað þess að fá pökkunarvél

Þess í stað var ákveðið að flytja hana frekar inn frá verksmiðju sem þegar býður upp á slíka lausn. Segir Carlos lausnina vera umhverfisvæna því nú þegar eru annars því nú þegar eru dósirnar fluttar inn tómar ásamt gleri og því sé rúmmálið það sama.

Carlos fullyrðir að neytendur eigi ekki að finna fyrir breytingum á bragðgæðum, en verður kolsýrumagn í innflutta gosinu lagað að íslenska markaðnum þar sem meira magn af því er alla jafna notað en víða annars staðar, en hann segir bragðmuninn fyrst og fremst liggja í því.

Coca-cola vill sama bragð alls staðar

Segir hann sérstöðu íslenska vatnsins vera fyrst og fremst tilfinningalega, og að sérþjálfað bragðprófunarteymi hér á landi finni engan mun á innfluttu drykkjunum og þeim sem eru framleiddir hér á landi.

„Auðvitað gætu einhver steinefni í vatninu haft áhrif á bragð, en þú þarft að vera mikill sérfræðingur til að átta þig á því,“ segir Carlos. „Auk þess leggur Coca-Cola fyrirtækið mikið upp úr því að drykkirnir smakkist eins um allan heim.“