Nathan & Olsen, umboðsaðili morgunkornsframleiðandans General Mills, hefur sent bréf til birgja um að Cocoa Puffs og Lucky Charms verði ekki lengur markaðssett á Íslandi. Þetta kemur í kjölfar þess að framleiðandinn upplýsti innflytjandann um að nauðsynlegt væri að hætta dreifingu hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nathan & Olsen.

Ástæðan fyrir þessu, að því fram kemur í tilkynningunni, er að í breyttum uppskriftum tegundanna er að finna viðbætt, náttúrulegt litarefni sem ekki er leyfilegt samkvæmt reglum Evrópusambandsins.

„Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt fyrir okkur og íslenska neytendur,“ segir Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen í tilkynningunni. „Bæði Cocoa Puffs og Lucky Charms hafa átt fastan sess á heimilum landsmanna um áratuga skeið og notið mikilla vinsælda fólks á öllum aldri. Þessar vörur, ásamt ýmsum öðrum frá Bandaríkjunum, eru eftirsóttar á Íslandi en hér hefur verið innleidd evrópulöggjöf sem getur verið hamlandi þegar kemur að því að bjóða neytendum fjölbreytt úrval af bandarískum vörum.“

Samkvæmt upplýsingum frá General Mills er unnið hörðum höndum að lausn á þessum vanda svo að unnt verði að markaðssetja kornið á ný í Evrópu.