Stjórnendur gosdrykkjarisans Coca Cola segja horfurnar ekki bjartar framundan og spá því að árið verði erfitt. Fyrirtækið hagnaðist um 1,87 milljarða dala, jafnvirði 238 milljarða íslenskra króna, á síðasta fjórðungi nýliðins árs. Þrátt fyrir að þetta sé 13% aukning á milli ára þá jókst salan aðeins um 4% um heim allan á tímabilinu og námu tekjurnar 11,46 milljörðum dala á tímabilinu. Þetta var undir væntingum markaðsaðila sem bjuggust almennt við betri sölu á gosdrykkjum og öðrum vörum undir fyrirtækjahatti Coka Cola.

Muhtar Kent, forstjóri Coka Cola, segir síðasta ár hafa verið fyrirtækinu erfitt, ekki síst í Evrópu og Kína þar sem sala dróst saman um 4%. Salan í Evrópu dróst saman um 5%.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir hækkun á rekstrarkostnaði há Coka Cola, ekki síst kaup á efni á borð við söfum, plasti og járni auk þess sem sætuefni hafi hækkað í verði. Muhtar býst við að þessi neikvæða þróun mála geri það að verkum að rekstrarkostnaður verði 100 milljónum dölum hærri en áður var gert ráð fyrir.