Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á árunum 2001 til 2005 í forsetatíð George Bush og yfirmaður bandaríska heraflans í fyrra Persaflóastríðinu, er stuðningsmaður Barack Obama forseta. Ástæðan fyrir stuðningi Powell eru áform stjórnvalda í Bandaríkjunum að draga úr umsvifum bandaríska hersins í Afganistan og herða tökin gegn hryðjuverkahópum.

„Ég held að við eigum að halda áfram á þeirri braut sem við erum,“ sagði Powell í viðtali í sjónvarpsþættinum CBS This Morning. Fréttastofa Reuters fjallar um viðtalið. Í því sagði Powell m.a. stefnu Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, ekki nógu skýra. Þá benti Powell, sem er flokksbundinn Repúblikani, á að hann hafi kosið Obama í síðustu forsetakosningum og ætli hann að gera það áfram.