*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. júní 2021 07:22

Collab sækir á erlend mið

Framleiðendur drykkjarins skoða útflutning til fleiri Norðurlanda og stefna jafnframt á að hefja sölu í Bretlandi í haust.

Andrea Sigurðardóttir
Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Ankra ehf. - Feel Iceland.
Aðsend mynd

„Fólk er mikið að nota kollagenduftið okkar til að blanda út í drykki og því sáum við tækifæri í að setja kollagendrykk á markað. En við erum lítið fyrirtæki og því ekki með þá framleiðslugetu og tæki og tól sem til þarf. Við kynntum hugmynd okkar fyrir Ölgerðinni og úr varð þetta samstarfsverkefni um Collab þar sem Ölgerðin þróaði drykkinn í samvinnu við okkur," segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Ankra ehf. sem framleiðir kollagen vörur úr þorskroði undir merkjum Feel Iceland og Oh my cod! andlitsserum sem kom á markað í síðustu viku, auk þess að vera í samstarfi við Ölgerðina með Collab-drykkina.

Stefna á breskan markað í haust

Hrönn segir þau fyrir fram hafa haft mikla trú á að drykkurinn yrði vinsæll en viðtökurnar hafi engu að síður farið fram úr væntingum. Nú stefna þau með drykkinn á fleiri markaði.

„Ölgerðin og Feel Iceland eiga í öflugu samstarfi við útflutning á Collab. Drykkurinn er nú þegar seldur í Finnlandi og Færeyjum og gengur mjög vel. Við fórum í „pilot" í Svíþjóð á síðasta ári og þá seldist allt upp um leið, en þar sem þetta var takmarkað magn gæti Íslendingasamfélagið þar úti hafa haft þó nokkuð um það að segja. Við erum svo að skoða frekari útflutning til Norðurlandanna og til Bretlands. Við vorum einmitt í síðustu viku að kynna drykkina í mjög flottri verslun í London, Pantechnicon, en við hófum nýlega að selja kollagenfæðubótarefnin okkar þar. Verslunin er með skandinavísku og japönsku ívafi og er á þremur hæðum. Þetta er „high end" verslun og meðalkaup viðskiptavina þar eru um 200 pund. Þau eru mjög hrifin af bæði Feel Icelandfæðubótarefnunum og Collab svo við munum að öllum líkindum byrja einnig að selja drykkinn þar í haust, en svo á eftir að koma betur í ljós hver viðbrögð Breta við drykknum verða."

Þau horfa jafnframt til Bandaríkjanna, en það styttist í að sala hefjist á fæðubótarefnum Feel Iceland þar í landi hjá einkareknum læknastofum.

„Við erum með mjög flottan umboðsaðila sem mun sjá um vörurnar okkar í Bandaríkjunum og erum í samstarfi við eina af aðalstjörnunum í bandarísku sjónvarpsþáttunum Ninja Warrier sem mun koma til með að kynna vörurnar okkar vestanhafs. Það hefur orðið svolítil töf á því að hefja söluna þar í kjölfar faraldursins. Við kaupum umbúðir fyrir Feel Icelandvörurnar erlendis og flytjum þær til Íslands þar sem framleiðslan fer fram, en dósirnar eru búnar að vera fastar úti vegna skorts á gámum til að flytja þær til Íslands og við eigum því ekki nægar birgðir í Bandaríkjunum til þess að geta farið af stað. Við munum þó geta byrjað á fullum krafti í haust."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Ölgerðin Feel Iceland Collab