Þýski viðskiptabankinn Commerzbank hefur keypt Dresdner Bank af tryggingafélaginu Allianz. Kaupverðið er 9,8 milljarðar evra, eða 1.200 milljarðar króna sem jafngildir tæplega landsframleiðslu íslenska hagkerfisins. Commerzbank hyggst í kjölfarið fækka starfsmönnum um 9.000.

Commerzbank er næststærsti banki Þýskalands á eftir Deutsche Bank en eftir samrunann dregur umtalsvert saman með bönkunum og verður Commerzbank stærri hvað varðar fjölda útibúa og viðskiptavina. Deutsche Bank er þó eftir sem áður stærstur þegar litið er til eigna, með 2.000 milljarða á móti 1.100 milljörðum hjá Dresdner og Commerzbank.

Í tilkynningu frá Commerzbank segir að samlegðaráhrif vegna kaupanna muni nema fimm milljörðum króna að frátöldum kostnaði við samrunann. Sameinaður banki muni hafa yfir 1.200 útibúum að ráða árið 2012, sem samkvæmt Financial Times þýðir að útibúum verður fækkað um 300 á tímabilinu. Samtals starfa um 67 þúsund manns hjá bönkunum en Commerzbank stefnir að því að fækka störfum um 9.000 á næstu misserum.

Helst er talið að niðurskurðurinn bitni á fjárfestingarbankastarfsemi og bakvinnslu bankanna, en Commerzbank fullyrðir að ekki verði gripið til uppsagna fyrr en undir lok árs 2011. Dresdner Bank er 136 ára gamalt vörumerki en Martin Blessing, sem tók við framkvæmdastjórastöðu Commerzbank í maí sl., segir að haldið verði í nafnið.