Þýski bankinn Commerzbank gekkst í dag undir sátt sem felur í sér að hann mun greiða bandarískum yfirvöldum sekt að fjárhæð 1,5 milljarða dala, andvirði um 210 milljarða króna.

Er Commerzbank gefið að sök að hafa tekið þátt í því annars vegar að aðstoða aðila í ríkjum, sem viðskiptabann hefur verið lagt á, að eiga viðskipti í gegnum bandaríska bankakerfið og hins vegar að hafa aðstoðað fyrirtæki við að fremja bókhaldsbrot.

Í frétt New York Times segir að aðilar í Íran og Súdan hafi flutt hundruð milljóna dala í gegnum bandaríska bankakerfið með aðstoð Commerzbank, sem hafi svo eytt gögnum sem annars hefðu upplýst um það hverjir raunverulega ættu í hlut.

Annar þáttur snýr að japanska fyrirtækinu Olympus Corporation, sem framleiðir lækningatæki og myndavélar. Hefur Olympus verið sakað um stórfelld bókhaldsbrot og Commerzbank er gefið að sök að hafa aðstoðað við þessi brot og að þau hafi verið framin í gegnum bankann.