Commerzbank, næststærsti banki Þýskalands, skilaði tapi upp á um 720 milljónir evra, andvirði um 123 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaður bankans fyrir allt síðasta ár nam því aðeins um sex milljónum evra en var 638 milljónir evra árið á undan.

Afkoman er að stærstum hluta til komin vegna einskiptiskostnaðar sem tengist uppsöfnuðu skattalegu tapi. Bankinn gaf í nóvember út nýtt viðmið fyrir ávöxtun eigin fjár til ársins 2016 og er það nú 8%, en algengt viðmið er 10-12%. Lækkunin þýðir að bankinn getur ekki nýtt allt það skattalega tap sem hann hafði safnað saman og þurfti því að afskrifa um 560 milljónir evra.

Þá þurfti bankinn að afskrifa 185 milljónir evra vegna sölu á úkraínsku dótturfyrirtæki. Gengi bréfa Commerzbank hefur lækkað um 7,5% það sem af er degi.