Nýherji hefur samið við þýska fyrirtækið Comparex, sem er leiðandi fyrirtæki í heiminum í ráðgjöf og eignastýringu á hugbúnaðarleyfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nýherja.

Samstarfinu er ætlað að auðvelda viðskiptavinum Nýherja að velja og halda utan um hugbúnaðarleyfi sín á hagkvæmari hátt. Þá felur það í sér aðstoð við viðskiptavini vegna úttektar á hugbúnaðarleyfum auk ráðgjafar í tengslum við hugbúnaðarsamninga, svo sem Microsoft Enterprise leyfasamninga og skýlausnir.

„Það er afar mikilvægt fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og COMPAREX að vinna með öflugu þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni sem hefur reynslu og þekkingu á þörfum viðskiptavina. Við höfum miklar væntingar til samstarfsins við Nýherja og að geta boðið íslenskum fyrirtækjum ný tækifæri í hugbúnaðarráðgjöf,“ segir Henrik Kasbani Andersson, framkvæmdastjóri COMPAREX í Danmörku.