Netverslunin Computer.is fagnar 10 ára afmæli sínu um þessar mundir en hún er ein af fyrstu netverslunum landsins og sú fyrsta sem hóf sölu á tölvum og tölvubúnaði á netinu hér á landi.

Fyrirtækið sjálft á reyndar mun lengri sögu að baki því netverslunin Computer.is er rekin af einu elsta starfandi tölvufyrirtæki landsins, Tæknibæ ehf, sem hóf starfsemi sína árið 1986.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að í nýlegri rannsókn Hagstofu Íslands á netnotkun íslenskra heimila og einstaklinga kom í ljós að fjórir af hverjum fimm sem versluðu á netinu á 12 mánaða tímabili höfðu keypt eitthvað af innlendum fyrirtækjum í gegnum netið.

„Við höfum tekið eftir því að fólk nýtir sér í auknum mæli að versla tölvur og tölvubúnað í gegnum netið“ segir Ólafur Arason, rafmagnstæknifræðingur og eigandi fyrirtækisins í tilkynningunni.

„Við höfum lagt áherslu á einfaldleika í netversluninni okkar en jafnframt leggjum við kapp á að sýna ítarlegar upplýsingar um eiginleika og virkni búnaðarins sem við seljum. Það ríkir þónokkur samkeppni á þessum markaði og með því að fá viðskiptavini til að afgreiða sig sjálfir í gegnum netið getum við boðið lægra verð á vörunum sem við seljum.“

Þá kemur fram að frá stofnun Tæknibæjar hafa ýmsar tölvuverslanir skotið upp kollinum en margar hverjar hafa þó stoppað stutt og lagt upp laupana.

„Við lærðum fljótt að til að geta keppt við þá samkeppnisaðila sem á markaðnum eru hverju sinni  er nauðsynlegt að halda rekstrarkostnaði í lágmarki,“ segir Ólafur í tilkynningunni.

„Á sama tíma þarf jafnframt að fylgjast gaumgæfilega með tækninýjungum erlendis enda hefur mikil framþróun átt sér stað í þessum geira undanfarin ár. Vörur eiga það til að úreldast ört og þá er mikilvægt að hafa virka birgðastýringu. Röng birgðastýring ásamt skorti á aðhaldi í fjármálum er líklega ein af aðalástæðum þess að ýmsir samkeppnisaðilar hafa komið og farið í gegnum tíðina.“