Tölvuleikur norska fyrirtækisins FunCom, Age of Conon, sem settur var á markaðinn fyrr í mánuðinum og hefur notið mikillar hylli netverja, fær nú þann vafasama heiður að ónefndur framleiðandi klámmynda hefur ákveðið að gera klámmynd sem vísar til leiksins.

Á myndin að heita Rage of Bonan, sem er vandþýtt.

Age of Conan er frá norska fyrirtækinu Funcom, sem Straumur fjárfestingarbanki átti rúmlega 4% hlut í um seinustu áramót, og er um að ræða fjölspilunarleik sem á m.a. í samkeppni við EVE Online frá CCP.

Á flótta með lykilinn að skírlífisbeltinu

Age of Conan er þó ekki fyrsti tölvuleikurinn sem klámiðnaðurinn heiðrar með þessum hætti og er skemmst að minnast eins útbreiddasta tölvuleiks heims, World of Warcraft, sem gerð var klámmynd eftir undir heitinu "World Of Whorecraft". Ekki verður heldur gerð tilraun til að þýða þann titil hér.

Á fréttavef epn.dk kemur fram að framleiðandinn lítur svo á að þótt efni myndarinnar sé kynferðislegt hafi það gamansama undirtóna. Í mjög samanþjöppuðu máli er söguþráðurinn sá að kvenkyns aðalpersóna myndarinnar, sem situr í fangelsi, myrðir fangavörð og brýst út úr prísundinni með lyklana að skírlífsbelti sínu í farteskinu.

Forsvarsmenn FunCom vildu ekki tjá sig um málið.

Í gegnum tíðina hafa klámmyndaframleiðendur iðkað þann leik að búa til klámmyndir sem skírskota til þekktra kvikmynda samtímans og má m.a. nefna að kvikmyndirnar Saving Private Ryan, Schindler’s List og The Terminator eru allar innblásturinn að myndunum „Shaving Ryan's Privates”, „Schindler's Fist” og „The Sperminator”.