Concept Events, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð undirrituðu, nú á dögunum, samning til þriggja ára samning um framkvæmd og utanumhald á Hátíð hafsins í Reykjavík. Hátíð hafsins er fjölskylduhátíð sem leggur áherslu á fróðleik um hafið og matarmenningu hafsins í bland við góða skemmtun. Hátíðin er orðin ein af stærri borgarhátíðum, en á síðasta ári heimsóttu um 40.000 manns hátíðina. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Að Hátíð hafsins standa Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð en hátíðin er í raun sameining tveggja hátíða, þ.e. Hafnardeginum sem er á laugardeginum og Sjómannadeginum sem er á sunnudeginum.

Þá má geta þess að í ár munu Faxaflóahafnir sf. fagna því að 100 ár eru liðin frá því að Gamla höfnin var formlega tekin í notkun auk þess sem Sjómannadagsráð mun fagna sínu 80 ára afmæli.

„Þetta er þvílíkur heiður fyrir okkur hjá Concept Events sérstaklega þar sem okkur þykir svo vænt um þessa hátíð” segir Dagmar Haraldsdóttir, annar eigandi Concept Events.

Dagmar hefur skipulagt Hátíð Hafsins í samstarfi við Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð seinustu 5 ár. Dagmar Haraldsdóttir stofnaði Concept Events ásamt Söndru Ýr Dungal þann 1. janúar síðastliðinn.

„Það er svo gaman að sjá traustið og hollustuna frá þeim viðskiptavinum sem við höfum unnið fyrir og við þakklátar fyrir að fá að halda áfram því starfi sem við höfum verið að vinna með undanfarin 5. ár á Hátið hafsins.  Þá hefur Grandasvæðið byggst mjög hratt upp sem hefur óneitanlega sett sinn svip á hátíðina hverju sinni og mun einnig gera í ár þar sem enn fleiri fyrirtæki hafa bæst við. Við höldum að sjálfsögðu áfram að vinna með endurnýtanleg efni á svæðinu og leggjum áherslu á að sem flestar uppákomur séu tengdar hafinu, höfninni og umhverfi þess” segir Dagmar.