Frumtakt hefur selt 11,33% hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Controlant fyrir tæplega tvo milljarða króna, því er Controlant metið á um 17 milljarða króna. Frumtak, sem er samlagssjóður í eigu NSA, lífeyrissjóða og banka, mun enn vera stór hluthafi í Controlant en alls bárust á annantug tilboða í eignarhlutann, bæði frá innlendum og erlendum aðilum.

„Ástæða sölunnar er sú að Frumtak, fyrsti sjóður Frumtak Ventures, er að ljúka starfstíma sínum og er skuldbundinn til að selja eignir sínar. Frumtak Ventures mun eftir viðskiptin áfram fara með stóran hlut í Controlant hf. í gegnum sjóðinn Frumtak 2,“ segir í tilkynningu Arion banka.

Sjá einnig: Controlant lýkur 2 milljarða útboði

Controlant hefur þróað hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Fjárfestahópur núverandi hluthafa í Controlant, leiddur af Investco ehf., keypti hlutinn. Sagt er frá því í tilkynningu Arion banka að Controlant verði í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19.

„Viðskiptavinir félagsins stefna að því að dreifa bóluefni fyrir lok árs og á fyrri hluta næsta árs, en Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu.“

Sjá einnig: Controlant hlýtur Nýsköpunarverðlaunin

„Við hjá Frumtaki höfum verið afskaplega stolt af því að fylgja félaginu í gegnum ótrúlegan vöxt á undanförnum árum. Stofnendur, stjórnendur og starfsmenn Controlant hafa unnið þrekvirki og félagið er leiðandi á sínu sviði í heiminum,“ segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks.