Controlant er um 70 milljarða króna virði miðað við nýleg viðskipti með bréf félagsins. Virði félagsins hefur fjórfaldast á einu ári og er orðið hærra en markaðsvirði meirihluta félaga í Kauphöll Íslands.

VÍS hækkaði verðmat sitt á Controlant um 79% á milli fjórðunga úr 583 milljónum í 1.042 milljónir króna samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins. Á kynningarfundi VÍS í morgun sagði Arnór Gunnarsson , forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS, að hækkunin byggði á gengi nýlegra viðskipta með bréf Controlant sem færu fram á um 12.500 krónum á hlut. Gengið hefði verið um 7.000 krónur á hlut í júní. Miðað við það var Controlant í heild metið á tæplega 40 milljarða króna í lok júní. VÍS kom inn í hluthafahóp Controlant fyrir ári ásamt Sjóvá, lífeyrissjóðum og fleiri stofnanafjárfestum þegar Controlant safnaði um 2 milljörðum króna af nýju hlutafé.

Virði Controlant fjórfaldast á einu ári

Virði Controlant hefur fjórfaldast síðan þá. Í nóvember á síðasta ári seldi Frumtak I 11,33% hlut í Controlant á um 2 milljarða króna þar sem miðað var við að Controlant væri um 17 milljarða króna virði. Frumtak fjárfesti fyrst í Controlant árið 2011.

Controlant, sem stofnað var árið 2007, þróar vöktunarlausnir fyrir lyf og matvæli svo hægt sé að fylgjast með ástandi viðkvæmra sendinga í rauntíma.

Félagið óx hægt til að byrja með. Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, sagði á fundi Samtaka iðnaðarins í mars að það hefði tekið áratug fyrir starfsmennina að átta sig á hver stefna félagsins væri.

Uppgangur Controlant hefur hins verið ævintýralegur síðustu ár. Fyrirtækið hefur meðal annars verið í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni Pfizer við COVID -19. Vélbúnaður og hugbúnaður frá Controlant er nýttur til að fylgja með bóluefninu sem geyma þarf í 80 gráðu frosti.

Á milli áranna 2019 og 2020 ríflega tvöfölduðust tekjurnar úr 390 milljónum í um 854 milljónir króna. Í ár stefnir í að tekjur félagsins verði nær átta milljörðum króna og stefnt er á að tvöfalda tekjurnar aftur á næsta ári. Starfsmenn Controlant verða yfir 300 í árslok en 53 störfuðu hjá fyrirtækinu í byrjun árs 2020.

Verðmætara en meirihluti félaga í Kauphöllinni

Markaðsvirði Controlant er nú hærra en meirihluta þeirra tuttugu félaga sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands. Sem dæmi er virði Controlant álíka og tveggja stærstu smásölufyrirtækja landsins en markaðsvirði Haga er nú um 74 milljarðar króna og hjá Festi er markaðsvirðið um 69 milljarðar króna.

Stærstu hluthafar Controlant um áramótin voru Frumtak II með 12,9% hlut, Stormtré, fjárfestingafélag Hreggviðs Jónssonar með 6,5% hlut, Líra ehf. fór með 5,3% hlut og Kaskur átti 4,6% hlut. Þá átti Gísli Herjólfsson, forstjóri og stofnandi Controlant, 3% hlut um áramótin.