*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 9. júní 2021 11:27

Controlant metið á tæpa 40 milljarða

Markaðsvirði Controlant hefur rúmlega tvöfaldast frá því í nóvember í fyrra og þá hafa tekjur fyrirtækisins nífaldast frá því í fyrra.

Ritstjórn
Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant.
Haraldur Guðjónsson

Markaðsvirði íslenska nýsköpunarfélagsins Controlant hefur tvöfaldast á um hálfu ári og er nú um 40 milljarðar króna. Markaðurinn greindi fyrst frá þessu.

Samkvæmt frétt Markaðarins seldu Akta Sjóðir hlut í Controlant á genginu 7 þúsund krónur. Hlutafé Controlant nemur um 5,4 milljónum að nafnvirði og heildarvirði félagsins út frá sölugengi Akta því 37,8 milljarðar króna.

Í nóvember á síðasta ári var fyrirtækið metið á 17 milljarða króna miðað við sölu á 11,33% hlut Frumtaks fyrir um tvo milljarða króna og því ljóst að markaðsvirði þess hefur hækkað mikið á þessu ári.

Þá hefur einnig orðið mikill tekjuvöxtur en gert er ráð fyrir að þær nífaldist frá því í fyrra og verði um 7,6 milljarðar króna á þessu ári. Á næsta ári er búist við því að tekjurnar margfaldist aftur og verði um 15 milljarðar króna.

Tækni Controlant hefur verið í lykilhlutverki í dreifingu á Pfizer-BioNTech bóluefninu en Controlant býður meðal annars upp á búnað sem gerir Pfizer kleift að fylgjast með ástandi bóluefnanna í rauntíma við flutning.