Hátæknifyrirtækið Controlant hefur opnað nýja starfsstöð í Kaupmannahöfn. Í fréttatilkynningu segir að nýja starfsstöðin muni styðja við hraðan vöxt fyrirtækisins og áframhaldandi starfræna þróun og nútímavæðingu í aðfangakeðju lyfja.

„Kaupmannahöfn er mikilvæg miðstöð lífvísindaiðnaðar, og þar hafa sum af stærstu lyfja- og flutningafyrirtækjum heims umfangsmikla starfsemi. Með starfsstöð í Kaupmannahöfn er Controlant því í aukinni nánd við viðskiptavini og samstarfsaðila og er í góðri stöðu til þess að mæta vaxandi eftirspurn eftir lausnum frá nýjum og núverandi viðskiptavinum úr lyfjaiðnaði á heimsvísu.“

Hjá Controlant í Danmörku starfa nú þegar tugur sérfræðinga og stefnir fyrirtækið að áframhaldandi vexti í Danmörku á næstu misserum. Áhersla verður lögð á ráðningu starfsmanna með reynslu og þekkingu á sviði þjónustu, sölu- og markaðsmála, og stefnumótandi viðskiptaþróunar.

Í dag starfa um 430 einstaklingar hjá fyrirtækinu af 40 mismunandi þjóðernum. Auk höfuðstöðva sinna á Íslandi og nýju skrifstofunnar í Danmörku rekur Controlant einnig starfsstöðvar í Bandaríkjunum, Hollandi og Póllandi. Á síðasta ári voru 200 einstaklingar ráðnir til starfa. Langstærstur hluti starfsfólks er staðsettur á Íslandi eða um 400.

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, opnaði starfsstöðina formlega fyrr í vikunni að viðstöddum fulltrúum frá Invest in Denmark, Copenhagen Capacity, íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn og viðskiptavinum, samstarfsaðilum, fjárfestum, stjórnarmeðlimum og starfsfólki.

„Við erum ört vaxandi fyrirtæki með metnaðarfull markmið og skýra stefnu um að stuðla að öruggum, skilvirkum, traustum, rekjanlegum og sjálfbærum flutningum lyfja, og útrýma sóun í einni verðmætustu virðiskeðju heims. Við þurfum að vera reiðubúin í þá spennandi vegferð sem framundan er. Með starfstöð í Kaupmannahöfn styrkjum við alþjóðlega starfsemi okkar og verðum nær sumum af stærstu lyfja- og flutningafyrirtækjum heims sem gerir okkur kleift að styrkja núverandi viðskiptatengsl og skapa ný. Náið samstarf við iðnaðinn er lykilatriði í sjálfvirknivæðingu og stafrænni þróun aðfangakeðju lyfja, og mun gera okkur kleift að umbreyta henni,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant.

© Hildur María Valgarðsdóttir (Hildur María Valgarðsdóttir)