Sjóvá hefur fært virði óskráðra eigna sinna upp um 520 milljónir króna í drögum að uppgjöri fjórða ársfjórðungs. Í tilkynningu segir að breytingin skýrist að mestu leyti af virði hlutabréfa í Controlant en einnig hafi virði hlutabréfa Loðnuvinnslunnar og Kerecis verið fært upp.

Viðskiptablaðið sagði frá því í lok október að Controlant væri metið á 70 milljarða króna í viðskiptum á þeim tíma en gengi hlutabréfa félagsins var í kringum 12.500 krónum á hlut. Innherji greindi frá því fyrir rúmum mánuði að hlutabréfaverð Controlant væri komið upp í 15 þúsund krónur og fyrirtækið því metið á yfir 90 milljarða króna. Til samanburðar þá var fyrirtækið metið á tæplega 40 milljarða króna í júní síðastliðnum.

Velta Controlant tuttugufaldaðist á milli áranna 2019 og 2021 og nam tæplega 8 milljörðum á síðasta ári. Fyrirtækið, stofnað árið 2007, skilaði hagnaði í fyrsta sinn á síðasta ári. Til samanburðar þá var fyrirtækið metið á tæplega 40 milljarða króna í júní síðastliðnum.

Sjá einnig: Ótrúlegur uppgangur Controlant

Sjóvá kom inn í hluthafahóp Controlant í hlutafjárútboði haustið 2020. Hlutur Sjóvár í Controlant var færður á 633 milljónir króna í lok annars og þriðja ársfjórðungs á þessu ári. Ekki kemur fram í tilkynningu Sjóvár hvað virði eignarhlutar tryggingafélagsins í Conrolant, Kerecis og Loðnuvinnslunni er nú bókfærður á. Óskráð hlutabréf Sjóvár voru færð til bókar á 2,7 milljarða króna í lok þriðja ársfjórðungs og hækka því í tæplega 3,2 milljarða eftir breytinguna.

VÍS hækkaði verðmat sitt á Controlant um 79% á milli annars og þriðja fjórðungs eða úr 583 milljónum í 1.042 milljónir króna samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs.

Samkvæmt drögum að uppgjöri nemur ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu hjá Sjóvá um 18,4% og nema fjárfestingartekjur af eignum í stýringu um 8 milljarða króna árinu 2021.