*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 22. mars 2021 19:23

Controlant á spjöld sögunnar

Velta Controlant fer úr 200 milljónum í 6 milljarða á 3 árum. Búnaður félagsins til að fylgjast með bóluefni við COVID-19 er kominn á Smithsonian.

Ingvar Haraldsson
Guðmundur Árnason er fjármálastjóri Controlant.
Haraldur Guðjónsson

íslenska nýsköpunarfyrirtækið Controlant er komið á spjöld sögunnar. Tæki og tól tengd fyrstu sendingu Pfizer á bóluefni við COVID-19 er komið á Smithsonian safnið í Washington en þar á meðal er búnaður frá Controlant.  „Ef þetta fer allt í skrúfuna erum við alla vega komin á spjöld sögunnar,“ sagði Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, á fundi um fjárfestingar í sprotafyrirtækjum á vegum Samtaka iðnaðarins.

Unnu 300-400 tíma á mánuði 

Tækni Controlant hefur verið í lykilhlutverki í dreifingu Pfizer á bóluefni við COVID-19. Controlant býður upp á búnað til að geta fylgjast stafrænt og í rauntíma með ástandi bóluefna Pfizer á meðan það er flutt en geyma þarf bóluefnið í 80 gráðu frosti.  

Guðmundur segir að fyrir um ári hafi stjórnendur Controlant áttað sig á að þeir væru með einu lausnina sem gæti nýst í að fylgjast með slíkum sendingum. Það hafi veirð mikið kapphlaup að fullmóta kerfið áður en fyrstu leyfin fyrir notkun bóluefnisins voru gefin út í nóvember og desember á síðasta ári. Controlant lauk við að vinnu á sex mánuðum sem áður stóð til að tæki tvö ár. „Við bættum í teymið mjög hratt á þessum tíma,“ segir hann.

Lykilstarfsmenn hjá félaginu verið tilbúnir að vinna 300 til 400 klukkustundir á mánuði til að ná að ljúka við að þróa lausnina í tæka tíð því þeir hafi talið sig leika hlutverk sem skipti máli í baráttunni gegn veirunni. „Við finnum það hjá Pfizer að þeir eru virkilega þakklátir fyrir það sem við erum búin að leggja á okkur. Þeir brosa stundum að því að þeir séu hundrað þúsund og við séum hundrað en við séum svolítið hjartað í því sem þeir eru að gera.“ 

Kerfið hafi virkað vel því 99,99% af bóluefninu hafi skilað sér óskaddað á áfangastað.

Tók áratug að finna stefnuna

Controlant var stofnað árið 2007 en Guðmundur segir að það hafi tekið áratug fyrir starfsmenn fyrirtækisins að átta sig á hvert fyrirtækið ætti að stefna. „Vitandi það sem við vitum í dag hefðu menn mögulega hætt við,“ sagði Guðmundur aðspurður um fyrstu tvö til þrjú árin í rekstri og uppskar hlátur úr salnum. „Það er eiginlega betra að vita minna og hafa trú á verkefninu.“ 

Árið 2017 var áherslunni breytt frá þróun vélbúnaðar í að bjóða upp á þjónustu og í kjölfarið fóru umsvifin að aukast. Fyrirtækið hafi vaxið hægt þar til á síðasta ári. Veltan fór úr 20 milljónum árið 2009 í 200 milljónir árið 2018. Á síðasta ári var hins vegar 132% tekjuvöxtur hjá félaginu og veltan nam nærri milljarði króna. Á þessu ári stefni svo í yfir 500% vöxt og veltan verði um 6 milljarðar króna.

Þá hefur félagið ráðið um 8 starfsmenn á mánuði síðustu 15 mánuði svo nú stefnir í að félagið fari úr 53 starfsmönnum í ársbyrjun 2020 í 175 starfsmenn þann 1. apríl og um 230 í lok þessa árs. Af starfsmönnunum í dag eru um 165 á Íslandi. 

Upptaka af fundinum er hér að neðan:


Stikkorð: Controlant