Veðmálafyrirtækið Coolbet sem margir Íslendingar þekkja, en félagið var með um 8 þúsund íslenska notendur fyrir ári síðan og þrjá starfsmenn, hefur verið selt fyrir 149,1 milljónir evra, eða sem samsvarar 24 milljörðum íslenskra króna.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir ári að félagið á bakvið Coolbet vefsíðuna, Vincent Group, hafi þá verið metið á 11,5 milljarða króna. Tekjur þess námu 18,6 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins, þar sem helmingur kom frá veðmálum á íþróttir og helmingur frá spilavítum á netinu.

Í tilkynningu segir að þrátt fyrir áhrif Covid 19 faraldursins hafi EBITDA félagsins numið hálfri milljón evra fyrstu níu mánuði ársins. Félagið er skuldlaust og hefur safnað um 35 milljónum evra í hlutafjárútboðum.

Fyrirtækið sem staðsett er í Eistlandi, þó móðurfyrirtækið sé maltneskt, var stofnað af Norðmanninum Jan Svendsen árið 2015 en hann er jafnframt stærsti eigandinn með tæplega 16% eignarhlut. Starfsmenn eru um 175 út um allan heim, og notendur eru yfir 84 þúsund í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Eistlandi, Síle, og nú nýlega í Kanada og Perú.

Kaupandi félagsins er bandaríska spilavítisfyrirtæki GAN, og væntir félagið því að kaupin gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi næsta árs eftir að ýmis skilyrði, m.a. um samþykkt yfirvalda, hafa verið uppfyllt.

GAN hyggst fjármagna kaupin með nýju hlutafé, en greitt er fyrir hlutina í Vincent group með hvort tveggja eigin hlutum og peningum. GAN þjónar spilavítum í Bandaríkjunum með hugbúnaðarlausnum.