Eistneska veðmálafyrirtækið Coolbet er metið á 82,9 milljónir evra eða því sem nemur um 11,5 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu vegna hlutafjáraukningar sem stendur nú yfir hjá félaginu. Útboðinu er ætlað að safna 3-5 milljónum evra í nýtt hlutafé á genginu 9,5 evrur á hlut sem myndi þýðir að verðmæti félagsins yrði á bilinu 85,9-87,9 milljónir evra. Félagið hefur nú þegar safnað 28 milljónum evra af hlutafé í alls átta fjármögnunarumferðum. Þá hafa núverandi hluthafar  skuldbundið sig til að leggja til 3 milljónir evra. Til samanburðar má nefna að markaðsvirði Origo í Kauphöllinni er um 10,5 milljarðar og markaðsvirði Sýnar er um 8 milljarðar.

Coolbet hefur verið nokkuð umsvifamikið hér á landi en fyrirtækið er nú með yfir 8.000 íslenska notendur auk þess sem fram kemur í fjárfestakynningunni að markaður félagsins hér á landi að frádregnum þróunar- og stjórnunarkostnaði sé farin að skila hagnaði. Auk Íslands eru helstu markaðir fyrirtækisins í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og í Chile. Þá stefnir félagið að frekari útrás í Suður Ameríku og Kanada auk þess sem það fékk nýlega starfsleyfi í Danmörku og er því starfandi á öllum Norðurlöndunum.

Coolbet hóf starfsemi árið 2016 en var stofnað ári áður af Norðmanninum Jan Svendsen sem er jafnframt stærsti eignandi fyrirtækisins með 15,75% hlut, en hann var einnig stofnandi NordicBet sem var keypt af Betsson árið 2012 fyrir 85 milljónir evra. Þá er Norðmaðurinn Mortein Klein stærsti utanaðkomandi eigandi Coolbet með um 9,66% hlut. Hann er stofnandi veðmálafyrirtækisins Cherry AB og leiddi hóp fjárfesta sem fyrr á árinu tók fyrirtækið yfir fyrir 893 milljónir evra. Starfsmenn Coolbet eru nú um 170 talsins og eru þrír þeirra íslenskir. Þá eiga allir starfsmenn hlut í fyrirtækinu eða eiga kauprétti af hlutum.

Mikill tekjuvöxtur

Eins og áður segir er Coolbet veðmálafyrirtæki en starfsemi þess fer eingöngu fram á internetinu en fyrirtækið á sjálft allan hugbúnað sem tilheyrir veðmálum á íþróttir. Samkvæmt kynningunni er fyrirtækið með nú með yfir 200.000 notendur en af þeim voru 56.000 virkir á þriðja ársfjórðungi. Tekjur fyrirtækisins sem skilgreinast sem veðmál að frádregnum vinningum og bónusum námu 12,6 milljónum evra á síðasta ári og jukust um 240% milli ára. Þá námu tekjur fyrirtækisins um 14,6 milljónum evra á fyrstu 9 mánuðum þessa árs og jukust tekjur á fyrri helmingi ársins um 178%. Á þriðja ársfjórðungi komu um 53% af tekjum þess frá veðmálum á íþróttir á meðan 42% komu frá hefðbundnum veðmálum í netspilahöllum (e. online casino).

Þrátt fyrir umtalsverðan tekjuvöxt nam tap félagsins tæplega 6,5 milljónum evra á síðasta ári auk þess sem tapið á fyrstu 9 mánuðum ársins nam tæplega 5,9 milljónum evra. Tapið kemur þó að töluverðum hluta til vegna þróunarkostnaðar á hugbúnaði fyrir fyrirtækjamarkað. Samkvæmt kynningunni er gert ráð fyrir að EBITDA félagsins verði orðin jákvæð á þriðja ársfjórðungi næsta árs. Þá gerir fyrirtækið ráð fyrir að tekjur þess muni nema yfir 50 milljónum evra árið 2021 og að EBITDA verði tæplega 10 milljónir evra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .