Sjö þingmenn Verkamannaflokksins í Bretlandi hafa yfirgefið flokkinn til að mótmæla afstöðu formannsins, Jeremy Corbyn, til Brexit og meintri andúð hans á gyðingum. Þá vilja þingmennirnir meina að Corbyn beiti einelti og valdníðslu til að fá sínu fram í Verkamannaflokknum. Þingmennirnir hyggjast bæði sitja áfram á þingi og bjóða sig fram í næstu kosningum undir nafni óháðra. Frá þessu er greint á fréttavef Bloomberg .

Jeremy Corbyn segist harma ákvörðun sjömenninganna. „Ég er vonsvikinn yfir því að þessir þingmenn hafi ekki séð sér fært um að vinna áfram að stefnumálum Verkamannaflokksins, sem hafi aukið fylgi flokksins meira en nokkru sinni áður að kosningunum árið 1945 undanskildum,“ var haft eftir Corbyn í tilkynningu sem birt var strax eftir ákvörðun sjömenninganna.

Þingmennirnir tilkynntu ákvörðun sína í morgun á sameiginlegum blaðamannafundi og spöruðu ekki stóru orðin. „Mér verður óglatt við það að horfa á Verkamannaflokkinn verða að flokki kynþáttafordóma og gyðingahaturs. Ég er æfur yfir því hlutverki sem stjórn Verkamannaflokksins hefur átt í Brexit,“ sagði Mike Gapes, fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins og núverandi þingmaður óháðra.