Jeremy Corbyn, formaður breska verkamannaflokksins, vill að fyrirtækjum sé bannað að greiða arð nema allir starfsmenn fái laun sem samræmast neysluviðmiðum stofnunarinnar Living Wage Foundation. Um er að ræða 8,25 pund á tímann, jafnvirði rúmlega 1.500 króna, nema í Lundúnum þar sem viðmiðið er 9,40 pund á tímann.

Corbyn sagði þetta á fundi í miðborg Lundúna í gær þar sem hann kynnti hugmyndir sínar um aðgerðir til að búa til sanngjarnara samfélag. Þar kynnti hann jafnframt hugmyndir um lögfestingu hámarkshlutfalls hæstu og lægstu launa innan sérhvers fyrirtækis.

„Aðeins hagkvæmir atvinnurekendur borga arð; ef þeir reiða sig á ódýrt vinnuafl til að geta hagnast þá held ég að við ættum að velta því fyrir okkur hvort við ætlum að vera blind gagnvart slíku viðskiptalíkani,“ sagði Corbyn. Hann talaði jafnframt um að af G7 löndunum væri Bretland í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum hvað varðar tekjuójöfnuð.

Frétt Bloomberg.