Egill Örn Jóhannsson formaður Félags bókaútgefanda og framkvæmdastjóri Forlagsson sem er stærsti bókaútgefandinn segir forsvarsmenn Costco hafa komið til landsins fyrir nokkrum vikum gagngert til að kynna sér íslenska jólabókaflóðið. Honum hafi virst sem að Costco ætli sér að taka þátt að fullum krafti í þessu fyrirbæri eins og haft er eftir honum í frétt RÚV um málið.

„En þeir mæta þar mikilli samkeppni,“ segir Egill Örn, en stórar matvöruverslanir á íslenska markaðnum hafa boðið upp á bækur í kringum jólin og má þar nefna Bónus, Hagkaup og Nettó. Egill Örn kveðst þó ekki vita hvernig jókabókasölu verslunarinnar verði háttað, en Costco hefur boðið upp á bækur á bæði íslensku og ensku.

„Þeir hafa verið að pakka hlutum inn í stærri umbúðir og það verður kannski eitthvað í þeim dúr,“ segir Egill Örn sem býst ekki við að úrvalið verði eins mikið og í öðrum verslunum.

Egill segist trúa því að jólabókaflóði haldi sínu striki líkt og síðustu ár þrátt fyrir fréttir um samdrátt í bókasölu. „Það varð meira segja aukning í sölu um jólin 2015,“ segir Egill sem trúir því að bókin verði áfram vinsælasta jólagjöfin.