Steve Pappas varaforseti Costco í Evrópu segir fyrirtækið ekki hafa órað fyrir fjöldanum í verslun fyrirtækisins hér á landi þegar hann sat fyrir svörum á fjármálaþingi Íslandsbanka hjá Birni Berg Gunnarssyni fræðslustjóra bankans í morgun. „Costco elskar Ísland, þetta hefur gengið mjög vel. flest allt sem við setjum út á gólf flýgur úr hillunum“ sagði Pappas.

„Við bjuggumst við stórri opnun en okkur óraði ekki fyrir fjöldanum og hvað hann hefur verið stöðugur frá opnum. Við biðum alltaf eftir að hlutir mundu róast en það hefur ekki enn gerst.” Pappas segir að þó fyrirtækið líti venjulega ekki til borga með færri en milljón íbúa hafi félagið komið auga á tækifærið hér á landi eftir heimsókn til landsins.

Tækifæri til að bjóða Íslendingum lægra verð

„Ástæður efasemdaraddanna voru vegna þess að í Reykjavík búa færri en milljón íbúar. Þegar við skoðuðum markaðinn hins vegar sáum við ýmis sóknarfæri sem ekki voru endilega nýtt og tækifæri til að bjóða upp á betra verð en verið var að gera,” sagði Pappas, en spurður um vinsælustu vöruna þá nefndi hann jarðarberin við hlátrasköll í salnum. En óvinsælasta varan?

„Weetabix er óvinsælasta varan hjá okkur á Íslandi. Það bragðast víst eins og pappír en er bráðhollt svo endilega prófið það.” Pappas segir fyrirtækið stefna að því að koma íslenskum vörum í dreifikerfi fyrirtækisins erlendis, en hann segir gæðin vera nokkuð misjöfn að því er mbl greinir frá.

„Við sjáum gæði í svínakjöti, kjúklingi og fiski, en það sama gildir ekki um nautakjöt,“ segir Pappas. „Við erum að vinna með bændum til að bæta gæði þess og framleiðslu.“ Pappas þvertekur fyrir það að verið sé að selja vörur á undirverði í versluninni, en hann segir álagninguna vera næfurþunna.