Steve Barnett viðskiptastjóri Costco á Bretlandi og á Íslandi segir fyrirtækið hafi neyðst til að nota flug í meira mæli við innflutning hingað til lands en gert hafi verið ráð fyrir, sem leiði til hærra verðs. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Fréttablaðsins vegna aukinna verðhækkana hjá vöruhúsi keðjunnar í Kauptúni í Garðabæ sem nokkuð hefur verið í umræðunni.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá nýlega hækkaði verð á flestum vörum í versluninni frá því í haust, en það átti líka við um Bónus.
„Sökum flutningstíma og tafa erum við nú að flytja inn með flugi viðkvæmari vörur sem bundnar eru tilteknum dagsetningum í meiri mæli en upphaflega stóð til,“ segir Barnett.

„Við teljum þetta bæta gæði og tryggja meðlimum okkar lengra hillulíf vara, en á endanum kostar það meira. Við reynum ávallt að lágmarka þessar hækkanir eins og við getum.“ Fyrir utan aukinn innflutning með flugi hafi fyrirtækið neyðst til að halda aukalager af vinsælustu vörunum í tímabundnu geymsluhúsnæði til að tryggja nóg framboð af þeim.

„Þetta hefur einnig átt sinn þátt í auknum kostnaði,“ segir Barnett en til viðbótar hafi sveiflur í gengi leitt til verðhækkana. „Ég vil þó benda á að af sömu ástæðu höfum við einnig getað lækkað verð, í einhverjum tilfellum.“

Loks segir Steve Barnett að fyrirtækið hafi breytt um stefnu í verðmerkingum til að draga úr ruglingi þegar fyrirtækið lækkaði verð þegar vara nálgaðist að renna út. „Upphaflega breyttum við einfaldlega verðinu og margar vörur sem fólk hefur verið að benda á eru afrakstur þessa. Til að forðast rugling gefum við nú upp upphaflegt verð og afsláttinn bæði á hillumerkingum og kvittun. “