Eftir fundi Samtaka iðnaðarins með fulltrúum Costco hefur verið ákveðið að efna til samtals milli vöruhúsakeðjunnar og íslenskra framleiðenda í byrjun nóvember. Þar munu fulltrúar Costco segja frá innkaupastefnu sinni og hverjar áherslurnar eru í starfseminni að því er segir frá á vef samtakanna.

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI segir fundina tvo sem samtökin héldu með fulltrúum fyrirtækisins hafa verið ánægjulega að því er fram kemur á vefsíðu þeirra. „Costco leggur mikla áherslu á að kaupa inn gæðavörur á góðu verði,“ segir Sigurður en fyrri fundurinn var haldinn á skrifstofu samtakanna með Brett Vigelskas framkvæmdastjóra félagsins.

„Því ættu íslenskir framleiðendur að eiga samleið með þeirri innkaupastefnu.“ Síðari fundurinn var svo haldinn í verslun Costco í Garðabænum með innkaupafólki fyrirtækisins, þeim Suzanne Whittingham og Steve Barnett.