Costco á Íslandi hagnaðist um 463 milljónir króna á rekstrarárinu sem lauk í ágúst 2020 en félagið hagnaðist um 417 milljónir eftir skatta árið áður, samkvæmt ársreikningi. Rekstrarhagnaður félagsins nam 113 milljónum króna, samanborið við 152,4 milljónir árið áður.

Sala Costco hérlendis nam 20,5 milljörðum króna og jókst um 3,7% frá fyrra ári sem stjórnendur félagsins eru ánægðir með, ef tekið er tillit til erfiðra aðstæðna, að því er kemur fram í skýrslu stjórnar.

„Líkt og mörg önnur fyrirtæki á Íslandi hefur Covid-19 haft töluverð áhrif á rekstur Costco og sérstaklega á seinni helming tímabilsins. Vegna þeirrar takmarkana sem voru innleiddar til að hindra útbreiðslu veirunnar varð talsverð lækkun í sölu á bensíni og ferðatengdum vörum vegna takmarkana á ferðalögum fólks og minni veitingasölu sem var takmörkuð að því leyti að viðskiptavinir máttu ekki setjast niður á svæðinu og borða þar. Þessar lækkanir voru hins vegar bættar upp með meiri sölu á matvöru og öðrum vöruflokkum þegar viðskiptavinir okkar höfðu aðlagað sig að aðstæðum. Við sáum jafnframt mikla aukningu á sölu sótthreinsiefna, andlitsgríma og lyfja,“ segir í skýrslu stjórnar.

Greiddu starfsmönnum aukalega

Laun og launatengd gjöld námu 1.862 milljónum, samanbarið við 1.778 milljónir rekstrarárið 2019. Alls starfaði 161 starfsmaður í fullu starfi og 76 starfsmenn í hlutastarfi í lok ágúst 2020. Fram kemur að starfsmönnum hafi verið greitt aukalega fyrir stuðning þeirra og mikilvægt framlag á þessu erfiða rekstrarári. Sömuleiðis hafi aukinn kostnaður fallið á félagið vegna þrifa á vöruhúsi og öðrum rekstrarfjármunum til að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina.

Þá munaði um fyrir afkomu félagsins að gengishagnaður nam 422 milljónum samanborið við 307 milljónir árið áður. Þessi aukning kemur til vegna breytinga á gengi íslensk krónunnar gegn pundinu og dollaranum á framvirkum samningum, sem eru metnir á markaðsvirði. Því voru hreinar fjármagnstekjur jákvæðar um 462 milljónir á rekstrarárinu 2020.

Eignir félagsins jukust um einn og hálfan milljarð frá fyrra ári og nam 11,5 milljörðum í lok ágúst 2020. Fasteign félagsins í Kauptúni er færð til bókar á 4,7 milljarða. Handbært fé frá rekstri nam 1,4 milljörðum og handbært fé í lok rekstrarársins nam 4,1 milljarði.  Eigið fé var 8,5 milljarðar, skuldir 2,8 milljarðar og eiginfjárhlutfallið því 73,6 í lok tímabilsins.

Alls keypti Costco á Íslandi vörur frá móðurfélaginu og tengdum aðilum fyrir 8,2 milljarða króna á rekstrarárinu. Í lok tímabilsins nam viðskiptaskuld við móðurfélagið 952 milljónum eða um 34% af heildarskuldum félagsins.

Í frétt Viðskiptablaðsins fyrir ári síðan kom fram að Costco hafi hagnast um 472 milljónir eftir skatta á rekstrarárinu sem lauk í águst 2019. Í skýrslu stjórnar fyrir síðasta rekstrarár kemur fram að vegna breyttra reikningsskilareglna um kaupréttarsamninga  þá hafi félagið leiðrétt rekstrarreikning 2019 sem nemur um 55 milljónum króna, þ.e. úr 472 milljónum í 417 milljónir.