Olíufélagið Atlantsolía ehf. hagnaðist um tæplega 204 milljónir króna í fyrra. Árið áður nam hagnaður félagsins 50 milljónum. Jókst hagnaðurinn því um rúmlega 300% milli ára.

Rekstrartekjur Atlantsolíu námu 4,6 milljörðum króna árið 2016 borið saman við 5,3 milljónir árið áður. Framlegð félagsins – rekstrartekjur að frádregnum breytilegum kostnaði við eldsneytissölu – var 1.143 milljónir en var 1.098 árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam tæplega 315 milljónum samanborið við 209 milljónir árið áður.

Atlantsolía, sem hóf rekstur árið 2004, rekur 19 sjálfsafgreiðslu - stöðvar á landinu. Þar af eru 12 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og 7 stöðvar á landsbyggðinni. Atlantsolía rekur einnig birgðastöð í Hafnarfirði og notar fjóra olíubíla í dreifingu. Birgðastöðin samanstendur af þremur tönkum, tveimur 3,8 milljóna lítra olíutönkum og einum 3,4 milljóna litra bensíntanki. Markaðshlutdeild Atlantsolíu í eldsneytissölu á höfuðborgarsvæðinu er um 10%, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu, en sala félagsins er talsvert meiri á einstaklingsmarkaði heldur en á fyrirtækjamarkaði.

Framlegðin batnar

Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir bætta afkomu milli ára helgast af bættri framlegð, minni sveiflum á heimsmarkaði fyrir olíu og auknum gengishagnaði.

„Reksturinn var góður á síðasta ári, en framlegðin af sölu eldsneytis batnaði um rúmlega 45 milljónir milli ára. Rekstrarkostnaðurinn lækkaði þó nokkuð. Ytri aðstæður voru einnig hagstæðari. Sveiflur á heimsmarkaðsverði olíu voru minni í fyrra borið saman við árið 2015 og markaðsaðstæður almennt stöðugari en árið áður, sem skilar sér í betri framlegð. Þá hafði gengishagnaður jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna vegna mikillar styrkingar krónunnar,“ segir Guðrún Ragna, sem segir rekstur félagsins stöðugan. Hún segir sölu á dísilolíu hafa aukast á kostnað bensínsölu líkt og undanfarin þrjú ár.

Costco hefur haft áhrif

Um fjórir mánuðir eru frá því að bandaríski verslunarrisinn hóf að selja eldsneyti í grennd við verslun sína í Kauptúni. Markaðshlutdeild Costco í eldsneytissölu á höfuðborgarsvæðinu er áætlað 10-15% og hefur bensínverð lækkað skarpt eftir að Costco hóf að selja bensín í Garðabæ. Guðrún Ragna segir eldsneytissölu Atlantsolíu hafa dregist saman frá opnun Costco.

„Það er kannski fullsnemmt að alhæfa um áhrifin af komu Costco á íslenska bensínmarkaðinn, en við höfum alveg fundið fyrir samdrætti í bensínsölu líkt og önnur olíufélög,“ segir Guðrún Ragna, sem segir Atlantsolíu hafa brugðist við breyttum markaðsaðstæðum. „Við höfum brugðist við með því að bjóða upp á sérverð á tveimur stöðum, á Skemmuvegi og Kaplakrika. Svo höfum við hækkað afslætti á dælulyklum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .