Gengi Icelandair Group lækkaði um rétt tæp 4% í 334 milljón króna veltu. Hluturinn kostar nú 14,25 krónur, en fyrirtækið hefur átt afar slappt ár á mörkuðum.

Styrking krónunnar hefur að öllum líkindum mikil áhrif á gengi bréfanna, enda félagið með tekjur í erlendum gjaldmiðlum og útgjöld í íslenskum krónum.

N1 og Skeljungur fengu þá einnig að finna fyrir fréttum um vænt verð Costco á olíumarkaðinum. En eins og fram kom í fréttum mun lítrinn kosta tæpar 170 krónur.

Gengi N1 lækkaði um 2,6% í 512 milljón króna veltu, en þá lækkaði Skeljungur um 1,70% í 76 milljón króna veltu.

Marel og Hagar stilltu seig einnig af í dag og lækkuðu um rúm 1%, en þó í 613 og 456 milljón króna viðskiptum.

Mest hækkaði Nýherji eða um 4,44% í 197 milljón króna viðskiptum. Fasteignafélögin og Tryggingarfélögin hækkuðu einnig.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 9,39% frá áramótum en lækkaði um 0,95% í dag.