Ein af stærstu smásölukeðjum heims skoðar nú þann möguleika að opna verslun í Reykjavík. Morgunblaðið segir að fulltrúar fyrirtækisins, sem er næststærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, að undanförnu átt fundi af þessu tilefni með ýmsum aðilum í stjórnkerfinu.

„Ég get staðfest að við funduðum með þeim hér í ráðuneytinu og erum að fara yfir þau atriði sem að okkur snúa. Við lítum jákvæðum augum á þetta mál,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála er ljóst að verulegur áhugi er af hálfu fyrirtækisins til að koma til Íslands. Fjármagnshöftin valda Costco ekki sérstökum áhyggjum enda eru nýfjárfestingar í erlendum gjaldeyri undanþegnar lögum um gjaldeyrismál. Félagið getur því flutt hagnað af rekstri félagsins úr landi.

Costco selur meðal annars matvörur, raftæki, húsgögn og fatnað.