Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að bandaríska verslunarfyrirtækið Costco fái að setja upp orkusölustöð við Korputorg, en fulltrúi Vinstri grænna í ráðinu greiddi einn atkvæði á móti. Samtök Verslunar og þjónustu fagna auknu frjálsræði í viðskiptum en segir það verða að ná til allra fyrirtækja. Þessu greinir Vísir frá.

Korputorg ehf. lagði fyrirspurn fyrir umhverfis- og skipulagsráð varðandi byggingu sjálfsafgreiðslustöðvar eða fjölorkustöðvar við Korputorg sem ráðið tók afstöðu til í gær. Allir fulltrúa í ráðinu, nema fulltrúi Vinstri grænna, gerðu ekki athugasemdir við að fyrirpyrjandi láti vinna breytingu á deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurn og í samráði við skipulagsfulltrúa sem síðar verði auglýst. Ráðið leggur hins vegar áherslu á að lágmarki helmingur af þeim dælum sem óskað er eftir að settar verði upp á lóðinni séu ætlaðar undir annan orkugjafa en jarðefnaeldsneyti.

Costco virðist því vera komið einu skrefi nær því að hefja starfsemi hér á landi, en fyrirtækið leggur áherslu á að geta selt eldsneyti. Fyrirtækið vill hins vegar einnig fá að selja áfengi, flytja inn lyf og kjöt frá Bandaríkjunum, en Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hefur verið jákvæð um breytingar laga hvað þessi mál varðar.

Lárus Ólafsson lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu segir í samtali við Vísi að samtökin fagna þessum breytingum nái þær fram að ganga. Þetta séu áherslur sem samtökin hafi barist fyrir í mörg ár. Hann segir hins vegar ekki rétt að gera þessar breytingar með undanþágu til eins fyrirtækis í verslun.