Hlutabréfaverð bandarísku verslunarkeðjunnar Costco hefur lækkað um 14,6% frá 16. júní þegar Amazon tilkynnti um kaup sín á Whole Foods verslunarkeðjunni. Við lokun markaða þann 15. júní stóð gengi hlutabréfa Costco í 180,06 dollurum á hlut en er í dag 157,13 dollarar.

Samkvæmt frétt Fortune um málið hafa kaup Amazon á Whole Foods mikil áhrif á bandarískan smásölumarkað. Kaupin eru einnig talin hafa áhrif á matvælaframleiðendur og jafnvel lyfsala. Costco er ekki eina verslunarkeðjan sem hefur lækkað í verði. Hlutabréfaverð Wal-Mart, Kroger og Target hefur einnig lækkað. Þó er talið að áhrifin muni koma verst niður á Costco þar sem fyrirtækið er aftarlega á merinni í því þróa netverslun miðað við samkeppnisaðila.

Gert er ráð fyrir því að Amazon muni gera breytingar á Whole Foods m.a. með því að gera fólki kleift að fá vörur upp að dyrum. Auk þess muni verslanir Whole Foods fá andlitslyftingu. Munu þessar aðgerðir auka en frekar á samkeppni á bandarískum smásölumarkaði.