Bensínstöð Costco hefur lækkað lítrann á díselolíu úr 158,9 krónum niður í 155,9 krónur. Þegar verslunin opnaði fyrir um mánuði síðan kostaði lítrinn 164,9 krónur. Þetta er í þriðja skiptið sem Costco lækkar lítraverð á díselolíu.

Að bensínstöð Costco undanskilinni er verðið á olíu ódýrast hjá á X-stöðvum Orkunnar en þar kostar einn líter 162,7 krónur eða 6,8 krónum meira en hjá Costco. Hægt er að skoða verðin hér . Bensínstöð Costco er þó ekki með í samanburðinum.

Nýverið var greint frá því að Costco vilji fjölga bensíndælum sínum úr tólf í sextán. Eins og sakir standa eru þrjár dælueyjur á bensínstöðinni með tólf slöngum. Langar raðir hafa verið við bensínstöð fyrirtækisins á síðustu misserum.