Costco er með 8% markaðshlutdeild á matvörumarkaði samkvæmt gögnum frá Meniga fyrir árið 2018 . Þá kemst nýliðinn Eldum rétt einnig á blað með um 1% markaðshlutdeild. Stærstu matvöruverslanirnar eru þó eftir sem áður Bónus með 27% markaðshlutdeild, Krónan með 19% og Hagkaup með 11%. Þá nemur markaðshlutdeild Nettó 8%, líkt og hjá Costco.

Dominos er vinsælasti skyndibitastaður Íslendinga með 21% markaðshlutdeild en þar á eftir kemur KFC með 10%, Subway með 7%, Serrano með 4% og Hamborgarabúlla Tómasar og American Style bæði með 3% markaðshlutdeild samkvæmt gögnum Meniga.

Þá segir Meniga að meðalmanneskjan hafi eitt 610 þúsund krónum í matarinnkaup á árinu sem sé 4% aukning frá árinu 2017. Fólk fari að jafnaði fjórum sinnum í viku í matvöruverslun sem er óbreytt tala milli ára. Meniga bendir á að þeir sem fari sjaldnar í verslanir eyði einnig minna að meðaltali í matvöru. „Það er því hagur í því fyrir neytendur að skipuleggja sig vel og reyna að fækka ferðum í búðina, fyrir utan hvað það sparar mikinn tíma,“ segir í færslu frá Meniga.